Description
Pottlok Gallusar 1. Og Gallus 2. – Grínblað Menntaskólanema í Reykjavík kom fyrst út 1926 og hét þá Pottlok Gallusar 1. Það var fjölritað í Fjölritunarstofu Pjeturs G. Guðmundssonar, Í Gegni segir að Pottlok komi út 1926-1927. – Á bakhlið Gallus 2 er teikning sem auðsjáanlega á að vera Halldór Kiljan Laxness. Textinn undir myndinni hljóðar svo: Hirðvefari vor – hinn mikli „fræbúðingur“ frá Kasmír, sem vjer birtum af mynd, „af eintómum prakkaraskap“. – Vefarinn mikli frá Kasmír kom fyrst út 1927 og er því líklegt að þetta rit komi líka út sama ár. Blöðin eru 29.1 X 22.3 cm að stærð og það fyrra er 4 bls. og það seinna 6 bls. – Á öftustu síðu Gallusar 2 stendur að Gallus komi út eins og þjófur á nóttu, þegar þörf er á, og spilling tímans keyrir svo agalega úr hófi, að hann getur ekki ógalandi upp á það horft. – Á sama tíma kom út Skólablað Menntaskólans í Reykjavík sem var sjálfseignarstofnun nokkurra nemenda skólans en það sameinaðist svo 1925, Skólablaðinu Skinfaxa sem var gefið út af U.M.F.Í. og kom út í tugi ára.
Útgáfa og prentun:
Útgefandi: Ótilgreindir nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík 1926. Pottlok Gallusar 1 er fjölritað í Fjölritunarstofu Pjeturs G. Guðmundssonar, Týsgötu 5 Reykjavík, en Gallus 2 er fjölritað í Fjölritunarstofunni Óðni á Bergþórugötu 45.