KindArt er vettvangur áhugalistamanns sem sækir innblástur sinn í hina íslensku sveit. Sem fullorðinn einstaklingur starfar Sigrún Lilja sem háskólakennari en sveitastúlkuna Sigrúnu dreymdi um að vera listamaður. Íslenska sauðkindin og hin ægifagra náttúra á æskustöðvunum Mýrdalnum eru stórir áhrifavaldar. Stíllinn er naívur og á köflum kúbískur, með einstaka gönuhlaupi í átt að abstraktinum.

Afhverju KindArt?
KindArt er leikur að orðum. Útfrá íslenskunni er vísunin nokkuð augljós; á þýsku vísar kind í barnslega einlægni og á ensku er einfaldlega talað um kærleika. Höfundaráætlunin snýst einfaldlega um að reyna að vera kona sjálf.

Um Sigrúnu Lilju
Sigrún Lilja er fædd og uppalin í Mýrdal árið 1974. Í sínu opinbera lífi starfar hún sem dósent við Háskólann á Bifröst og er doktor í félagsfræði listgreina frá Háskólanum í Exeter í Englandi. KindArt er ekkert annað en óður til æskudraums og vilji til að leyfa öðrum að njóta sem það kjósa.

Íslenska sauðkindin
Íslenska sauðkindin, hvort sem fólki líkar það betur eða verr, hélt einfaldlega lífi í íslensku þjóðinni í yfir þúsund ár. Hún er skemmtilegt apparat, greindari en fólk heldur, á köflum uppátækjasöm og innan íslenska fjárstofnsins leynast kynlegir kvistir og skemmtilegir persónuleikar, enda margir forystusauðir sem gert hafa garðinn frægan og komist í sögubækur. Því á íslenska sauðkindin skilið að henni sé sýnd tilhlýðileg virðing. Foreldrar listamannsins voru bændur í blönduðu búi sem m.a. hélt sauðfé. Árið 1982 skall riðuveikin á bænum og skera þurfti niður fjárstofn sem var hálft ævistarf þeirra í ræktun. Sá stóridómur var mikið áfall. Þessar myndir eru því þakkaróður til íslensku sauðkindarinnar fyrir að hafa gert sitt í að halda Íslandi í byggð, oft við ömurlegar og nánast ómögulegar aðstæður.

KindArt

Griffla ehf rekur KindArt
Jaðarsel 12, Bifröst, 311, Borgarnes
Sími 840 6769 · info@griffla.is
Kennitala: 6607012810 · VSK númer: 103332

Fornbókin

Fornbókin er rekin af Svani Jóhannessyni undir hatti KindArt.
Lækjarbrún 2, 810 Hveragerði.
Sími 899 7244.