Um verkið
Útvarpstíðindi var eitt vinsælasta tímarit sem hefur verið gefið út á Íslandi og kom út í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar. Útgefandi var Hlustandinn og Kristján Friðriksson var fyrsti ritstjórinn og það var prentað í Prentsmiðju Jóns Helgasonar, en fljótlega var farið að prenta það í Ísafoldarprentsmiðju. Upplagið var um 4500 eintök, en fór stöku sinnum upp í 6000 eintök. Líklega hafa það verið efnistök ritstjórans sem réði vinsældunum. Í hverju blaði var vísnaþáttur, viðtöl við ýmsa málsmetandi menn sem komu fram í útvarpinu og myndir og teikningar af þeim eftir ritstjórann. Þá var hálfsmánaðar dagskrá RÚV kynnt og var það burðarásinn í blaðinu og nýjung í íslensku þjóðfélagi. Stærð blaðanna er 25 X 18.5 cm, en blaðsíðufjöldinn gat verið misjafn, frá 1 opnu (4 bls.) eða 1 örk (16 bls.) og stundum meira. Stærðin gat líka verið breytileg og munaði oft um 1 cm á hæðina.
Útgáfa og prentun:
Útvarpstíðindi komu út í 12 ár. Fyrstu þrjú árin 1938–1940 undir stjórn Kristjáns Friðrikssonar, en 1941 tóku þeir við blaðinu Gunnar M. Magnúss og Jón úr Vör, en Kristján snéri sér alfarið að klæðagerðinni Últíma sem hann rak í mörg ár og var kenndur við. Nú var farið að birta danslagatexta, jafnvel nótur og náði það gríðarlegum vinsældum. Ljóð og stuttar sögur birtust líka stöku sinnum og Raddir hlustenda og spurningar var fastur þáttur. Þetta var því menningarlegt tímarit sem menn lásu og höfðu gaman að. Það var farið að prenta blaðið í Víkingsprenti en með 7. árg. 1945 var aftur farið að prenta blaðið í Ísafold og þeir tóku við ritstjórninni Vilhjálmur Þ. Gíslason og Þorsteinn Jósefssoon.
Alþýðuprentsmiðjan prentaði nú nokkur blöð 1945, en þá byrjaði hulduprentsmiðjan Fróði allt í einu að prenta blaðið og gerði það frá og með 6.–15. tbl. 8. árg. 1945 og 1.–7. tbl. 9. árg. 1946, alls 17 blöð. Þetta var prentsmiðja sem rekin var í gróðurhúsi í bakgarði við Leifsgötu og eru henni gerð skil í bók minni Prentsmiðjubókin, bls. 213-214, sem kom út s.l. sumar. Í lok frásagnar minnar segir að þar hafi verið prentuð 2. útgáfa af metsölubókinni Kona manns sem Valdimar Jóhannsson bókaútgefandi gaf út haustið 1945 og það var hann sem sagði frá þessari óvenjulegu prentsmiðju. Nú vitum við að Fróði hefur rekið prentsmiðju fram á árið 1946 og kannski eitthvað lengur og það kemur þá í ljós seinna, en þetta eru nýjar upplýsingar fyrir sögu þessarar einstöku prentsmiðju.
Árin 1946–1948 er blaðið enn prentað í Ísafold, en 1949 tóku nýir menn við stjórnartaumunum, þ.e. Eiríkur Baldvinsson, Stefán Jónsson og Jón Magnússon og þá flyst prentunin í Prentsmiðjuna Eddu. Þeir koma út 12 blöðum og þá hættir blaðið að koma út og borið er við pappírsskorti. Enn er reynt að halda blaðinu úti og Jón úr Vör lætur úr vör 1952 með nýjum flokki Útvarpstíðinda og merkir blaðið sem 1. árg. og kemur út 10 tölublöðum. — Síðan árið eftir 1953 reyna þeir Guðmundur Sigurðsson og Jóhannes Guðfinnsson með aðeins stærra brot, en það fer á sömu leið. Þeir koma líka út 10–11.tbl. en síðan ekki söguna meir og dagar þessa merka rits eru taldir.
Útvarpstíðindi
1938 maí – okt. 1938 11 blöð (þunn) 1. árg.
1938 okt. – apr. 1939 25 blöð (1–28) 2. árg. Merkt 1. árg.
1940 okt. – okt. 1941 36 blöð (1–39) 3. árg.
1941 okt. – okt. 1942 27 blöð (1–32) 4. árg.
1942 nóv. – okt. 1943 22 blöð (1–25) 5. árg.
1943 okt. – júl. 1944 18 blöð (1–25) 6. árg.
1944 júl. – apr. 1945 15 blöð (1–20) 7. árg.
1945 apr. – des. 1945 15 blöð (1–15) 8. árg.
1946 jan. – des. 1946 21 blað (1–21) 9. árg.
1947 jan. – jan. 1948 19 blöð (1–19) 10. árg.
1949 feb. – nóv. 1949 12 blöð (1–12) 12. árg.
1952 jan. – des. 1952 9 blöð (1–10) I. árg.
1953 mar. – des. 1953 9 blöð (1–11) án árg. tölu.
Alls: 212 blöð